Content uploaded by Renata Emilsson Peskova
Author content
All content in this area was uploaded by Renata Emilsson Peskova on Dec 09, 2019
Content may be subject to copyright.
Tveir fjöltyngdir drengir á Íslandi: Þróun tungumálaforða þeirra í tíu ár
Höfundar: Renata Emilsson Peskova, Kriselle Lou Suson Jónsdóttir
J. og L.Þ. eru báðir fæddir og uppalnir á Íslandi. J. býr á heimili þar sem íslenska, tékkneska
og enska eru notaðar, en á heimili L.Þ. eru talaðar filippseyska, spænska og enska, meðan
íslenska er notuð í námi og samfélagi. Báðir drengir hafa góða kunnáttu á öllum tungumálum
sínum. Þetta hefur þó ekki gerst sjálfkrafa. Í þessari grein ætlum við að tala um hversu
nauðsynlegt það er fyrir fjöltyngd börn að búa við innihaldsríkt málumhverfi með nóg af
málglöðu fólki, og að fá rík tækifæri til að efla samskiptafærni sína á öllum tungumálum
sínum. Við ætlum einnig að setja tungumál fjöltyngdra barna í samhengi við skólagöngu
þeirra.
Samkvæmt Hagstofu Íslands er J. flokkaður sem “einstaklingur af erlendum uppruna” því
annað foreldri hans er erlent, en L.Þ. er flokkaður sem “önnur kynslóð innflytjenda” þar sem
báðir foreldrar hans eru innflytjendur (sjá Töflu 1). Í leik- og grunnskólum eru þeir báðir
flokkaðir sem börn með annað tungumál en íslensku (ÍSAT). Við höfundarnir teljum að
drengirnir séu fjöltyngdir Íslendingar og íslenska er eitt af móðurmálum þeirra. Við
skilgreinum fjöltyngd börn í víðu skilningi sem börn sem hafa færni í fleiri tungumálum.
Tafla 1. Íbúar á Íslandi skipt eftir uppruna.
Við höfundarnir erum mæður þessara fjöltyngdra drengja og höfum haft gríðarlegan áhuga á
máltöku og tungumálanámi þeirra frá fæðingu. Við höfum báðar farið langar leiðir til að
skapa ríkt málumhverfi fyrir drengina til að stuðla að virku fjöltyngi þeirra. Við höfum
reglulega spjallað, lesið og lært við drengina og skapað þeim tækifæri til að nota tungumálin
sín við jafningja, fjölskyldur og vini. Við spjöllum við drengina um tungumál, hvers vegna
þau eru mikilvæg og hvernig er hægt að nýta tungumálafærni sína. Við höfum verið í
reglulegum samskiptum við kennara drengjanna um fjöltyngi þeirra og nám. Við höfum
báðar stofnað og rekið móðurmálsskóla á okkar tungumálum í sjálfboðaskyni í mörg ár, verið
virkar í réttindabaráttu um móðurmálskennslu og stuðlað að fræðslu um fjöltyngi fyrir
foreldra, en einnig höfum við stundað nám um fjöltyngi og kennslufræðilegar hugmyndir
fyrir fjölbreytta, fjöltyngda bekki.
J. er með tvö móðurmál, íslenska og tékkneska, og enska er viðbótartungumál hans sem
bætist í lífið hans við dvöl erlendis árið 2017. L.Þ. heyrði filippseysku, spænsku, íslensku
ensku frá fæðingu. Þeir nota tungumálin sín á hverjum degi í mismunandi kringumstæðum,
en Mynd 1 sýnir hvernig við mæður mátum notkun tungumála drengjanna árið 2018. Ráðandi
tungumál í samfélaginu, skólanum og frítímanum er t.d. íslenska, en enska er einnig þar og í
tilviki J. tékkneska því hann hefur sótt tékkneskan skóla reglulega í nokkrar vikur. Vináttur
drengjanna eru á öllum þeirra tungumálum því vinirnir eru bæði á Íslandi, í upprunalöndum
foreldra og annars staðar erlendis, með íslensk börn og önnur fjöltyngd börn. Í ferðalögum
eru ráðandi spænska hjá L.Þ. og tékkneska hjá J. Hins vegar höfum við höfundarnir áttað
okkur á því að þessi mynd af tungumálaforða drengjanna er breytileg í tíma og einnig að
drengirnir sjálfir sjá tungumálanotkun sína öðruvísi heldur en við foreldrarnir.
Mynd 1. Tungumálaforði J. og L.Þ. og notkun þess í mismunandi kringumstæðum
Árið 2016 byrjuðum við að vinna að langtímarannsókn “Fjöltyngisþróun tveggja drengja á
Íslandi: Langtíma tilviksrannsókn”, en í henni höfum við rekið máltöku og tungumálanám
drengjanna okkar úr ýmsum sjónarhornum. Við höfum þegar kynnt niðurstöður á þremum
ráðstefnum á Íslandi og erlendis. Við kynntum mælingar á íslenskuþekkingu þeirra frá
fæðingu til 10 ára aldurs á ráðstefnu um annarsmálsfræði í Reykjavík í maí 2018, þar sem
niðurstaða var sú að þeir hafa undantekningarlaust skorað innan eðlilegra aldursmarka í öllum
stöðluðum mælingum á íslensku. Drengirnir hafa skorað innan meðaltals eða yfir meðaltali í
prófum eins og Brigance þroskaskimun frá heilsugæslu, HLJÓM-2 skimunarpróf í
hljóðkerfis- og málvitund í leikskólum, Leið til læsis lesskimun fyrir fyrsta bekk grunnskóla,
Lesfimi, LOGOS skimunartæki um leshraða og -skilning, Orðarún mati á lesskilningi, og
samræmdum prófum. Þetta styður við niðurstöður úr öðrum rannsóknum erlendis um
fjöltyngd börn að ef þau skora eins og meðaltal eintyngdra barna á leikskólaldri þá hafa þau
tilhneigingu um að þróa með sér aldurssamsvarandi læsisfærni jafn og meðaltal eintyngdra
nemenda í gegnum grunnskólaárin (Kieffer, 2008; Thomas & Collier, 2002). Þó að þessar
mælingar eru staðlaðar fyrir eintyngd íslensk börn, eru þær einnig gagnlegar fyrir fjöltyngd
börn og þá sérstaklega fyrir þau sem eru fædd og uppalin á Íslandi. Við höfundarnir vitum frá
eigin reynslu og úr samtölum við aðra foreldra að það sé mikilvægt að foreldrar viti
niðurstöður mælinga barna sinna og fengi þannig raunverulegar upplýsingar um
íslenskukunnáttu barnanna, sem og ráð hvernig megi bæta stöðuna. Markmið með
lestrarkennslu verður að vera það að fjöltyngd börn hér á Íslandi nái aldurstengdum
viðmiðum á íslensku eins fljótt og hægt er. Fjöltyngi er ekki skaðleg fyrir akademíska þróun
barna.
Á ráðstefnu Early Language Learning í Reykjavík í júní 2018 var kynntur tungumálaforði (e.
language repertoire) drengjanna frá fæðingu til fyrsta stigs grunnskóla og hlutverk
tungumálastefna fjölskyldna (e. family language policy) í þróun hans. Með tungumálaforða er
átt við alla tungumálafærni einstaklinga á öllum sínum tungumálum og mállýskum sem er
stöðugt í þróun (Busch, 2012; Council of Europe, 2006). Tungumálastefna fjölskyldna er safn
af hugmyndum foreldra um tungumálaforða barna sem byggir á tungumálakunnáttu foreldra
og viðhorfum þeirra gagnvart tungumálum. Út frá þeim mótast aðstæður fyrir meðvitað eða
ómeðvitað tungumálaval heima fyrir og fyrir aðgerðir foreldra og barna um notkun
tungumála innan fjölskyldunnar. Tungumálastefna fjölskyldna getur verið víðtæk eða
ósjálfráð, í sífelldri þróun og breytileg yfir tíma (Schwartz, 2010). Á ráðstefnunni lýstum við
þeim markvissum aðferðum fjölskyldna okkar til stuðnings tungumálaforða drengjanna og
hversu mikilvægar hugmyndir foreldra um tungumálafærni drengjanna hafa verið frá upphafi,
en einnig því hvernig drengirnir sjálfir hafa áhrif á mótun tungumálaforðans síns og þróun
málkunnáttu sinnar. Það er mikilvægt að fjöltyngd börn séu í ríkulegu málumhverfi á öllum
sviðum lífsins: innihaldsrík samskipti við besta tungumál fjölskyldumeðlima, vinafólks,
skóla, sem og í afþreyingu, skjátímum, o.s.fr. Mikilvægi punkturinn hér er það að viðhorf
foreldra gagnvart tungumálum hefur áhrif á tungumálaval og -notkun barnsins. Margir
foreldrar hafa ekki mótað markvissa tungumálastefnu fjölskyldu sinnar og þess vegna skiptir
máli að þau fái upplýsingar um hvernig eigi að móta tungumálastefnu innan heimilis síns og
skapa þannig tækifæri fyrir árangursríka tungumála- og læsisþróun barnsins. Foreldrar eiga
ekki að bíða eftir að skólarnir kenni barninu tungumál þar sem tungumálið er fyrst og fremst
félagslegt fyrirbæri og lærist í virkum samskiptum við fólk. Fjöltyngi er alls ekki skaðleg
fyrir félagslega þróun barna, þvert á móti.
Í júní 2019 kynntum við rannsóknina á International Symposium on Bilingualism í
Edmonton, Kanada, og höfðum það að markmiði að skoða sérstaklega aðferðir okkar mæðra
og hvernig við höfum markvisst stuðlað að virku fjöltyngi og læsi drengjanna okkar. Við
höfum komist að þeirri niðurstöðu að með því að fjárfesta verulegan tíma, fjármuni og
fyrirhöfn, með því að vera staðráðnar og með skýrar hugmyndir um tungumál höfum við náð
markmiðum okkar. Drengirnir eru fjöltyngdir með góða færni á öllum sínum tungumálum og
með eðlilega færni í skólamáli íslensku. Þeir eru meðvitaðir um fjöltyngi sitt og þau tækifæri
sem felast í því í dag og hugsanlega í framtíðinni. Rekstur móðurmálsskóla er gríðarlegt
framlag okkar til þess að fleiri börn fái að kynnast jafningjum með sömu tungumál og að efla
málfærni sína á móðurmáli samhliða skyldunámi. Þetta langa ferli hefur haft sína árekstra og
ásteytingarsteina, en einnig er að verða augljóst að drengirnir hafa sjálfir sífellt vaxandi áhrif
á lærdómsferlið og munu áfram ráða ferðinni.
Markmið okkar með langtímarannsókninni um drengina okkar eru að lýsa mótun fjöltyngis
barna okkar í tíu ár, skoða hlutverk foreldra og setja fjöltyngi í samhengi við þróun íslensku
og við árangur í skólum. Góð þekking á tungumálum skiptir börnum máli vegna
fjölskyldutengsla, en hún tengist einnig sjálfsmynd barna og getur gefið þeim ýmsa
framtíðarmöguleika. Rannsóknin okkar sýnir hversu mikilvægt hlutverk spila foreldrar og
fjölskyldur í þróun tungumálaforða barna og að íslenskufærni barna getur þróast innan
eðlilegra marka samhliða öðrum tungumálum.
Staða íslensku þekkingar fjöltyngdra barna hefur verið í mikilli og alvarlegri umræðu meðal
fræðimanna, kennara og stofnanna á Íslandi undanfarin ár. Mælingar eins og PISA sýna að
flest fjöltyngd börn ná ekki sömu árangri í lestri á íslensku sem spáir um neikvæð áhrif á
námsferil þeirra, og kennarar, skólar og sveitarfélög bregðast við með ýmsu hætti.
Rannsóknin okkar sýnir að ekki er hægt að alhæfa um hóp fjöltyngdra nemenda.
Tungumálaforði barna er aðeins eitt af atriðum sem einkenna tilveru og skólagöngu þeirra, en
önnur atriði eins og fjölskylduhagur, menntun foreldra, tungumálastefnur fjölskyldna,
einstaklingseinkenni eða viðmót nærsamfélags hafa öll mikil áhrif á skólagönguna.
Fjöltyngd börn eru margbreytilegur hópur, oftast flokkuð sem „ÍSAT nemendur“ (íslenska
sem annað mál) en miða þarf að því að þau nái aldurstengdum viðmiðum í íslensku eftir
ákveðinn tíma. Til þess að ná þeim viðmiðum þarf að skapa raunveruleg tækifæri.
Samstarf með fjölskyldur er oftast nefnt sem leið til árangurs. Foreldrar af erlendum uppruna
eru jafn metnaðarfullir í garð barnanna sinna og íslenskir foreldrar og þau eru oftast tilbúin að
vera í góðu samstarfi við kennara barna sinna. Kennarar í margbreytilegum bekkjum verða að
þekkja nemendur sína vel og kynnast þeirra fjölskyldum til þess að geta hafið gott samstarf.
Allar fjölskyldur búa yfir menningar- og tungumálaauðlindum sem móta börnin en þessar
auðlindir hjálpa börnum að byggja nýja þekkingu á því sem er þegar til staðar. Þegar kennarar
og fjölskyldur vinna saman í átt að sameiginlegum markmiðum, til að þróa tungumálaforða
barna og skapa þeim tækifæri til að ná markmiðum aðalnámskrár, þá er þetta hvetjandi fyrir
börn og meiri líkur að markmiðin náist.
Mynd 2. Kynning á ráðstefnu International Symposium on Bilingualism í Edmonton, Alberta,
28. Júní 2019. Byggingin sem hýsti ráðstefnu heitir Interdisciplinary Research and Education
Building.
Heimildir:
Busch, B. (2012). The Linguistic repertoire revisited. Applied Linguistics, pp. 1-22.
Doi:10.1093/applin/ams056
Council of Europe. (2006). Plurilingual education in Europe: 50 years of international
cooperation. Strassburg: Council of Europe.
Kieffer, M. J. (2008). Catching up or falling behind? Initial English proficiency, concentrated
poverty, and the reading growth of language minority learners in the United States. Journal of
Educational Psychology, 100(4), 851–868. doi:10.1037/0022-0663.100.4.851
Schwartz, M. (2010). Family language policy: Core issues of an emerging field. Applied
Linguistics Review, 1(1), 171-192.
Thomas, W. P. & Collier, V. (2002). A national study of school effectiveness
for language minority students' long-term academic achievement. Final
Report: Project 1.1. University of California, Santa Cruz: Center for Research, Education,
Diversity and Excellence.