Content uploaded by Aevar Petersen
Author content
All content in this area was uploaded by Aevar Petersen on Aug 01, 2016
Content may be subject to copyright.
Náttúrufræðingurinn
28
Drengir að leik innanum vatnamýs í fjörunni innan hafnar við þorpið á Þórshöfn á Langanesi. Sjá 5. mynd. – False lake balls at village
Þórshöfn on Langanes. See Fig. 5. Ljósm./Photo: Sóley Vífilsdóttir, 23.3. 2012.
29
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
Vatnamýs á Íslandi
Inngangur
Árið 1988 birtist pistill í Náttúru-
fræðingnum um litla vöndla úr
dauðum mosagreinum. Var þeim
gefið heitið vatnamýs enda fundnar
í vatni eða við vötn og eldri íslensk
orð ekki til um þessi fyrirbæri.1 Nú,
tæpum þremur áratugum síðar,
hafa vatnamýs fundist á fleiri
stöðum á landinu og tímabært að
uppfæra upplýsingar um þessi
náttúrufyrirbæri.
Vatnamýs myndast í fersku vatni
en kastast oft upp á land vegna
öldugangs eða straumkasts. Þær
hafa einnig fundist á sjávarströndu
nærri árósum og hafa þá borist
niður eftir ám til sjávar. Vatnamýs
eru af tveimur megingerðum,
(1) misstórir vöndlar (stundum
kúlur) úr dauðum eða deyjandi
mosa (stundum með öðrum
gróðri eða efnum í bland) og
(2) vöndlar úr lifandi mosa. Til
eru kúlur í ferskvatni úr lifandi
þörungum, annars vegar kúluskítur
sem eru grænþörungar og
hins vegar slorpungur sem eru
bláþörungar.2,3,4,5,6 Vatnamýs hafa
fundist víða erlendis, s.s. annars
staðar á Norðurlöndum, í Norður-
Ameríku og á Írlandi, en efni í þeim
fer eftir aðstæðum.2,7,8,9,10
Svo virðist að náttúruskoðendur
hafi veitt þessum fyrirbrigðum litla
athygli. Vatnamýs finnast eflaust
á fleiri stöðum á landinu en engin
skipuleg könnun hefur farið fram til
þessa. Í þessari samantekt er skráð
það sem kunnugt er um vatnamýs
á Íslandi, hvar þær hafa fundist til
loka árs 2015 og ýmislegt um fundi
þeirra og myndun, þ.á m. um stærð
vöndlanna og um mosategundir
sem mynda þá.
Efniviður og aðferðir
Engin skipuleg könnun hefur
farið fram á tíðni og útbreiðslu
vatnamúsa og er hér byggt á
eintökum sem náttúruskoðarar, þ.á
m. höfundar, hafa safnað á ýmsum
stöðum á landinu. Farið var á
suma þekkta fundarstaði gagngert
til þess að kanna aðstæður nánar og
safna eintökum. Einnig var leitað
til ýmissa náttúruskoðara, t.a.m.
vatnalíffræðinga, og spurt hvort
þeir hefðu orðið varir við vatnamýs.
Greiningar á sýnum voru í
höndum Lars Hedenäs
mosa fræðings við náttúru-
gripasafnið í Stokkhólmi sem er
meðal höfunda þessar greinar.
Áður hafði Bergþór heitinn
Jóhannsson mosafræðingur greint
mosategundir úr sýnum frá þremur
fyrstu fundarstöðum vatnamúsa
í landinu1 og einum til viðbótar
(Hraunsfjarðarvatni).
Eintökin voru mæld þurr og
eftir geymslu í mislangan tíma.
Þrjár mælingar voru gerðar með
skífumáli, lengd, mesta breidd og
minnsta breidd. Breiddarmælingar
voru teknar með um 45º á milli
mælingarlína. Breidd var mæld á
tveimur stöðum vegna mismunandi
lögunar.
Við árs lok 201 5 höfðu mosavöndl ar sem kall aðir e ru vat namýs (e. false
lake balls) fundist á 17 stöðum á landinu. Vatnamýs myndast þegar mosi
veltist í vatni vegna öldugangs eða straumkasts og verður oftast kúlulaga
að lokum. Fyrstu tveggja fundarstaða árið 1969 og hins þriðja 1982 er
getið í fyrri grein um þetta efni.1 Hér eru skráðir fundir vatnamúsa á 14
stöðum til viðbótar. Fundarstaðir eru dreifðir um land allt. Fimm staðanna
eru í Þistilfirði og þar hafa jafnframt fundist langflest eintök, en aðrir
fundarstaðir eru stakir hér og þar. Vatnamýs eru misjafnar að stærð, allt frá
um 20 upp í 195 mm að lengd. Við greiningu mosategunda í vatnamúsum
frá tólf stöðum fundust 34 tegundir. Sum mosaeintök var aðeins unnt
að greina til ættkvíslar eða ættar. Eintök frá fjórum stöðum höfðu verið
greind áður og fundust í þeim fjórar mosategundir. Alls hafa því fundist
38 tegundir mosa í hérlendum vatnamúsum. Engin eintök eru til frá einum
fundarstaðanna (Þjórsárverum).
Ævar Petersen, Lars Hedenäs, Kristín Jónsdóttir, Róbert A.
Stefánsson og Skarphéðinn G. Þórisson
Náttúrufræðingurinn 86 (1–2), bls. 28–41, 2016
Ritrýnd grein
Náttúrufræðingurinn
30
Til mosagreiningar var skorin
sneið inn að kjarna og eintök valin af
handahófi úr safni vatnamúsa. Ekki
reyndist unnt að greina mosa úr
hverju einasta eintaki. Í örfáum
tilvikum, þegar mörg eintök voru til
frá sama stað, voru þau tekin heil til
greiningar. Á rannsóknarstofu var
tekið 1–2 cm3 stykki úr hverju sýni
nema í undantekningartilvikum. Af
einu sýni (úr Nýlenduvatni) var
aðeins til 0,5 cm3 stykki. Í öðru tilviki
(sýni úr Hafralónsá) voru teknir 1 og
2 cm3 hlutar úr tveimur eintökum. Í
þriðja tilvikinu var vatnamúsin mun
lausari í sér en hinar og var því allt
eintakið skoðað, um 5 cm3.
Sýnum var komið fyrir á plastdiski
með vatni til að sundurskilja
einstaka hluta. Heillegir stönglar og
greinar voru tínd til hliðar og greind
undir krufningssmásjá (einnig
kölluð víðsjá) sem stækkar frekar
lítið. Þegar þörf var á voru hlutarnir
skoðaðir nánar undir öflugri smásjá.
Fjöldi stöngla og greina sem unnt
var að bera kennsl á var skráður
nákvæmlega ef stönglar og greinar
voru færri en 10. Ef hlutar sömu
tegundar voru fleiri var fjöldi aðeins
skráður sem >10. Flestir stöngla- og
greinahlutar voru blaðlausir eða svo
lítið eftir að tegundargreining var
ógerleg. Sum sýni var aðeins unnt
að greina til ættkvíslar og í einu
tilviki aðeins til ættar.
Óverulegur hluti skoðaðra sýna
var úr öðrum efnum en mosum,
s.s. þörungum eða blágrænum
bakteríum (blágerlum). Eitt sýni (frá
Þórshöfn) reyndist ólíkt öðrum þar
sem í því var tiltölulega mikið af
rauðþörungum. Þótt þetta sýni hafi
verið að mestu úr mosa hafði það
legið í sjó um tíma og þannig fengið
í sig rauðþörungana. Þessir hlutar
voru ekki greindir frekar.
Fundarstaðir eru merktir með
hlaupandi númeri í tímaröð. Byrjað
er á stöðunum þremur sem nefndir
eru í fyrri grein.1 Ástæða þess að
þessir staðir eru skráðir aftur er sú
að hér er lýst öllum stöðum þar sem
vatnamýs hafa fundist á Íslandi til
þessa, og gefinn samanburður um
stærð og tegundarsamsetningu.
Tiltækar athuganir
Við árslok 2015 var kunnugt um 17
fundarstaði vatnamúsa hér á landi.
Staðirnir eru bæði á láglendi og
hálendi og eru dreifðir um mestallt
land (1. mynd).
Sagt er frá fyrstu þremur
fundarstöðunum í greininni frá 1988
þar sem vatnamúsa á Íslandi er fyrst
getið.1 Staðirnir þrír voru:
1. Holtavörðuvatn, Holtavörðu-
heiði, Strand. (64.992653°N;
21.083502°V), 1969.
2. Hádegisvatn, Þambárvöllum,
Bitrufirði, Strand.
(65.445608°N; 21.370993°V),
1969.
3. Bakkatjörn, Syðri-Bakka,
Eyjafirði, Eyf. (65.828949°N;
18.190977°V), 1982.
Síðan hafa sams konar fyrirbæri
fundist á 14 stöðum til viðbótar.
Nánari upplýsingar um þá fundi
eru skráðar hér á eftir í tímaröð
(staður, tími, fjöldi eintaka, finnandi,
– athugasemdir eða skýringar):
4. Stóra-Arfavatn, Arnarvatns-
heiði, Mýr. (64.905548°N;
20.488507°V), júní-júlí 1988.
Um 320 stykki fundust, þar af
var 77 safnað. Helgi Laustsen
(Freddy Laustsen, Reykjavík, munnl.
uppl.). – Finnandi taldi að um
1. mynd. Staðir þar sem vatnamýs hafa fundist til loka árs 2015. – Finding localities of false lake balls in Iceland until the end of 2015.
31
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
fjórðungi vatnamúsa á fundarstað
hafi verið safnað og miðað við
þann fjölda voru áætluð 320 eintök
á staðnum. Sumar voru í vatninu
við bakkann en aðrar höfðu skolast
upp á land.
5. Ormarsá, Þistilfirði, N.-Þing.
(66.414612°N; 15.902303°V),
um 2002–2010.
Hundruð eintaka fundust á þessu
árabili en aðeins nokkrum tugum
eintaka var safnað. Gunnur
Jónasdóttir og Guðjón Bjarnason,
Reykjavík. Árið 2014 fengust 26
eintök hjá finnanda sem hélt eftir
10–15 eintökum. – Gunnur segir að
fyrst hafi sést vatnamýs um 2002
neðst við Ormarsá, bæði við ána
sjálfa og á sjávarströndinni rétt
utan óssins, í Hjallhöfn. Eintökum
var safnað á mismunandi árstímum
í rúman áratug og þá helst þeim
„fallegu og stóru“ eins Gunnur
komst að orði. Mörg eintök eru
varðveitt hjá finnanda, bæði í
sumarbústað á Hóli við Raufarhöfn
og á heimili í Reykjavík, og hafa
þau eintök hvorki verið skoðuð
né mæld. Gestir hafa iðulega verið
leystir út með eintaki til minja.
Því má gera ráð fyrir að tugir
vatnamúsa frá þessum slóðum séu
í vörslu annarra.
Einn höfunda (Ævar Petersen)
og Guðmundur Ö. Benediktsson
á Kópaskeri komu á staðinn 11.
ágúst 2012 til að skyggnast um eftir
vatnamúsum. Leitað var um 400 m
upp með vesturbakka árinnar og
aðeins út fyrir ósinn. Fundust tugir
vatnamúsa sem kastast höfðu upp
á land, flestar voru fullmyndaðir
vöndlar en einnig lágu þarna
ólögulegir mosavafningar, lausir
í sér. Í litlu viki upp með ánni
hafði fjöldi vatnamúsa fokið eða
kastast upp á gras innan um
rekaspýtur. Sum eintök voru gróin
niður í grassvörð og gróður jafnvel
farinn að spíra upp úr þeim. Var
greinilega talsverður tími liðinn frá
því að vatnamýsnar bárust upp á
land. Aðrir vöndlar voru nýlegir og
lágu lausir á árbakkanum.
6. Hraunsskeið, við Ölfusárós,
Árn. (63.876948°N;
21.215756°V), 23. júlí 2005.
14 eintök og öllum safnað.
Erling Ólafsson, Hafnarfirði. –
Vatnamýsnar fundust á sjávar-
ströndinni vestan við árósinn.
Vöndl arnir eru úr mosa sem aðeins
vex á landi eða í ferskvatni og
hafa því borist til sjávar niður eftir
Ölfusá hvort sem þeir hafa myndast
í þeirri á, í vötnum sem tengjast
henni eða þverám sem renna í hana.
7. Hraunsfjarðarvatn, Helga-
fellssveit, Snæf. (64.923282°N;
22.935769°V), júní 2006.
10 eintök og var tveimur
safnað. Sigurborg Sturludóttir,
Stykkishólmi (Róbert A. Stefánsson,
Náttúrustofu Vesturlands, munnl.
uppl.) (2. mynd). – Annað eintakið
er varðveitt á Náttúrustofu
Vesturlands en hitt var sent til
tegundargreiningar á Akureyri.
Það kom síðan í hlut Bergþórs
Jóhannssonar að greina mosann
í því. Hann reyndist vera af
tegundinni lautahnúskur (líka
kallaður lautabrúskur) Kiaeria falcata.
Nauðsynlegt reyndist að skera geira
inn í eintakið til að nálgast sýni.
Þá kom í ljós að vatnamúsin var
óvenju þétt í sér. Fíngerð jarðefni
höfðu blandast við mosann sem að
auki var lifandi. Vatnamýsnar úr
Hraunsfjarðarvatni eru einu heilu
mosavöndlarnir úr lifandi mosa
sem fundist hafa hérlendis.
Nokkru eftir fundinn, 27. júní
2006, var farið á staðinn að nýju
(Róbert A. Stefánsson) en þá var
hann kominn undir vatn. Hafði
Hraunsfjarðarvatn verið tekið undir
miðlunarlón og yfirborð hækkað til
muna frá því vatnamýsnar fundust.
8. Þjórsárver, sunnan
Hofsjökuls. (64.600121°N;
18.726985°V), fyrir 2007.
Fjöldi eintaka a.m.k. 58 skv. ljósmynd
en engum safnað. Guðmundur P.
2. mynd. Vatnamús úr lifandi mosa af tegundinni Kiaeria falcata. Fannst í
Hraunsfjarðarvatni árið 2006. Eini fundur vatnamúsar úr lifandi mosa á Íslandi. Því miður
var fundarstaðurinn færður á kaf undir miðlunarlón skömmu eftir fundinn. – False lake ball
made of live moss of the species Kiaeria falcata found in 2006 at Lake Hraunsfjarðarvatn.
This is the only locality where entire false lake balls of live moss have been found in Iceland.
Unfortunately, the finding locality was turned into a reservoir shortly after the lake balls
were discovered. Ljósm./Photo: Róbert A. Stefánsson, 15.6. 2006.
Náttúrufræðingurinn
32
Ólafsson, Flatey og Stykkishólmi.
– Í bók Guðmundar Þjórsárver7 er
ljósmynd af vatnamúsum (bls. 100).
Ekki er nánar kveðið á um fundarstað
innan veranna, fundartíma né fjölda
eintaka. Á myndinni sjást a.m.k. 58
mosavöndlar en hafa sennilega verið
fleiri.
9. Eyrarselsvatn, Fljótsdalsheiði,
N.-Múl. (64.990468°N;
15.211977°V), 30. júní 2007.
Eintök í hundraðatali en aðeins
nokkrum þeirra var safnað. Skarp-
héðinn G. Þórisson, Náttúrustofu
Austurlands. – Mosavöndlarnir
höfðu kastast mislangt upp á land
(3.–4. mynd). Finnandi hefur ferðast
víða um hálendi Austurlands
um áratugaskeið og komið að
hundruðum vatna og tjarna. Hvergi
hefur hann orðið var vatnamúsa
nema við þetta eina vatn.
10. Nafnlaus tjörn, Öxi,
S.-Múl. (64.843127°N;
14.674030°V), 24.–27. júní 2008.
Nokkur eintök og var einu safnað.
Benóný Jónsson og Karólína
3. mynd. Vatnamýs á víð og dreif í sandfjöru við Eyrarselsvatn á Fljótsdalsheiði. – False lake balls distributed on the sandy beach at Lake
Eyrarselsvatn on Fljótsdalsheiði. Ljósm./Photo: Skarphéðinn G. Þórisson, 30.6. 2007.
4. mynd. Vatnamýs í fjörunni við Eyrarselsvatn á Fljótsdalsheiði. Linsulok (77 mm) sýnir stærð
þeirra. – False lake balls found beached at Lake Eyrarselsvatn on Fljótsdalsheiði. A 77 mm
camera lid is shown for comparison. Ljósm./Photo: Skarphéðinn G. Þórisson, 30.6. 2007.
33
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
Einars dóttir, Veiðimálastofnun,
Selfossi. Vatnamýsnar fundust í
flæðarmálinu þegar unnið var að
umhverfismati vegna fyrirhugaðs
vegstæðis um Öxi.8 Núverandi
vegur (nýr vegur enn ekki kominn)
var á sínum tíma lagður þvert yfir
tjörnina. Staðurinn var kannaður á
ný 5. júlí 2012 (Ævar Petersen) en þá
var hluti tjarnarinnar sunnan vegar
skrælþurr og stærri hluti hennar
norðan vegar nálega þurr. Engar
vatnamýs fundust.
11. Nýlenduvatn, Ökrum,
Mýrum, Mýr. (64.630893°N;
22.371529°V), 8. júní 2009.
Eitt eintak. Ib K. Petersen,
Árósaháskóla, Danmörku. – Dvalist
var marga daga við Nýlenduvatn
á ári hverju frá 2007 til 2015.
Vatnamýs hafa aldrei fundist nema
í þetta eina sinn og aðeins eitt lítið
eintak. Ennfremur hafa margir tugir
tjarna og vatna verið skoðaðir á
Mýrum síðustu ár en vatnamýs
hvergi fundist annars staðar (Ævar
Petersen, óbirt gögn).
12. Þórshöfn, Langanesi,
N.-Þing. (66.197272°N;
15.333350°V), 23. mars 2012.
Um 100 m löng og tveggja metra
breið röst uppgötvaðist í fjörunni
neðan við þorpið innan hafnargarða.
Þar voru líklega nokkur þúsund
vatnamýs (5. mynd) og var 84
eintökum safnað. Sóley Vífilsdóttir,
Þórshöfn. – Einn höfunda (Skarp-
héðinn G. Þórisson) fór á staðinn 11.
apríl 2012 og safnaði 144 eintökum
til viðbótar, öllum innan hafnar.
Þetta er óvenjulegasti fundur–inn
að því leyti að vatnamýsnar voru
í sjávarfjöru langt frá næstu á og
hafa því flotið langa leið. Í upphafi
fundust mosavöndlar einungis
innan hafnar en vatnamýsnar
hafa aðeins getað flotið eina
leið, þ.e. inn um hafnarmynnið
sem er aðeins um 100 m breitt. Í
hvassviðri daginn eftir dreifðust
vatnamýsnar, sumar út fyrir höfnina.
Þremur vikum seinna höfðu margar
kastast upp á gróinn fjörukamb.
Fljótlega eftir fundinn á Þórshöfn var
talið líklegast að vatnamýsnar hefðu
borist úr Hafralónsá en ós hennar
er í um fimm kílómetra fjarlægð
frá höfninni. Því var gerð sérstök
ferð að Hafralónsá um sumarið, 6.
júlí (Ævar Petersen), sjá umfjöllun
um næsta fundarstað (13). Annar
möguleiki var Ormarsá sem er tæpa
40 km í burtu, og fleiri ár koma til
greina.
13. Hafralónsá, Syðri-
Brekkum, Þistilfirði, N.-Þing.
(66.147172°N; 15.370583°V), 6.
júlí 2012.
Hundruð eintaka og var 82 þeirra
safnað. Ævar Petersen, Reykjavík.
– Vegna fundarins á Þórshöfn í
mars 2012, sjá um 12. fundarstað,
var vatnamúsa leitað við ósa
Hafralónsár um sumarið. Skoðað
var um eins kílómetra svæði með
ströndu ósasvæðisins (Leirunni)
sem er óvenju breitt af árósi að vera.
Hvergi var mikið af vatnamúsum á
sama stað heldur ein eða fáeinar á
víð og dreif (6. mynd). Má gera ráð
fyrir að vatnamýs hafi verið mun
víðar meðfram árósnum, ekki síst
neðan við það svæði sem skoðað var.
14. Nýpslón, Vopnafirði,
N.-Múl. (65.769877°N;
14.825425°V), 11. júlí 2013.
Tugir eintaka og var þremur
safnað. Kristín Jónsdóttir, Skógum
1, Vopnafirði (nú Hvammi 2 í
Þistilfirði). – Vatnamýsnar voru
í fjöruborðinu innst í Nýps lóni,
í króknum utan við Straums-
eyrarbrúna á mótum Skógalóns og
Nýpslóns.
5. mynd. Röst vatnamúsa í fjörunni innan
hafnar við þorpið á Þórshöfn á Langanesi.
Röstin var um 100 m löng og tveir m að
breidd. – False lake balls found at village
Þórshöfn on Langanes. They formed ca 100
m long and two m broad line along the coast
inside the harbour. Ljósm./Photo: Sóley
Vífilsdóttir, 23.3. 2012.
6. mynd. Vatnamýs við ós Hafralónsár neðan Syðri-Brekkna í Þistilfirði. Þær fundust
dreifðar á skoðuðu svæði. – False lake balls on the beach of river Hafralónsá in Þistilfjörður
a short distance from where the river opens towards the sea. Ljósm./Photo: Ævar Petersen,
6.7. 2012.
Náttúrufræðingurinn
34
15. Sandvík, Ytra-Álandi,
Þistilfirði, N.-Þing.
(66.216291°N; 15.567363°V),
25. júlí 2013.
Hundruð eintaka en engum safnað
á fundardegi. Kristín Jónsdóttir,
Skógum 1, Vopnafirði (nú Hvammi
2 í Þistilfirði). Einn höfunda (Ævar
Petersen) fór á staðinn 28. júní
árið eftir og safnaði 10 eintökum.
– Sumarið 2013 voru vatnamýs
dreifðar yfir nokkurt svæði
austarlega í Sandvík austan við
mynni Sandár. Einnig lágu stórar
gróðurtorfur í víkinni en þær eru
taldar hafa rofnað úr bökkum eða
hólmum Sandár, flotið niður ána
og skolast upp á ströndina austar í
Sandvík (7. mynd).
Þegar staðurinn var skoðaður
aftur ári síðar höfðu gróðurtorfurnar
stóru að mestu brotnað niður
og aðeins leifar eftir af þeim að
sjá í fjörunni í Sandvík. Tugir
vatnamúsa lágu þá á víð og dreif
í fjöruarfabeltinu efst í fjörunni (8.
mynd).
16. Sandur, Aðaldal,
S.-Þing. (65.977321°N;
17.568068°V), 19. júní 2014.
Eitt eintak. Jim Williams, Orkneyjum,
Skotlandi. – Finnandi rakst á eina
vatnamús þegar hann var á göngu
nálægt ósi Skjálfandafljóts. Ekki
sáust fleiri eintök á svæðinu en
leit var takmörkuð. Líkur eru á að
vatnamúsina hafi rekið þarna á
land eftir flóð í fljótinu um vorið en
hún var orðin uppþornuð og hafði
greinilega legið um tíma. Óljóst er
hvort hún hefur myndast í fljótinu
eða í einum af fjölda lækja sem í
það renna.
17. Ytra-Lón, Langanesi,
N.-Þing. (66.264028°N;
15.174512°V), 25. maí 2015.
Eitt eintak. Guðmundur Ö.
Benediktsson, Kópaskeri. –
Vöndullinn fannst á ströndinni
ofan við þarabinginn, nálægt fugla-
skoðunarskýli sem þar stendur.
Ekki fundust fleiri vatnamýs við
leit. 8. mynd. Tvær vatnamýs innan um fjöruarfabreiðu sem myndaði belti efst í fjörunni í
Sandvík hjá Ytra-Álandi í Þistilfirði. – Two false lake balls in the line of Sea Sandwort at
high water mark on the sandy beach at Sandvík, Ytra-Áland, Þistilfjörður. Ljósm./Photo:
Ævar Petersen, 28.6. 2014.
7. mynd. Stórir jarðvegshraukar (gróðurtorfur) í Sandvík við Ytra-Áland í Þistilfirði. Fjær
(ofarlega á myndinni til vinstri) sést dökkur flekkur af vatnamúsum og gróðursneplum sem
losnað hafa úr hraukunum. Efst í fjörunni er ljósgrænt gróðurbelti sem fjöruarfi Honkenya
peploides myndar. – Large pieces of turf on the sandy beach in Sandvík, at Ytra-Áland,
Þistilfjörður. In the upper left hand corner numerous false lake balls can be seen distributed
and small bits from the large pieces of turf. The light green belt at the top of the sand beach
is formed from the seashore plant Sea Sandwort Honkenya peploides. Ljósm./Photo:
Kristín Jónsdóttir, 25.7. 2013.
35
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
Samantekt
Vatnamýs hafa fundist í ferskvatni,
bæði í vötnum og straumvötnum.
Að auki hafa þær skolast upp á
sjávarströndu og fokið eða flotið
upp á bakka áa og vatna. Átta af 17
fundarstöðum voru í stöðuvatni eða
á bökkum stöðuvatns. Fimm þeirra
eru í 300–700 m hæð yfir sjávarmáli:
Holtavörðuvatn á Holtavörðuheiði,1
Þjórsárver sunnan Hofsjökuls,11
Stóra-Arfavatn á Arnarvatnsheiði,
Eyrarselsvatn á Fljótsdalsheiði og
nafnlaus tjörn á Öxi.12 Tveir staðir
eru 200–220 m y.s., þ.e. Hádegisvatn
í Bitrufirði1 og Hraunsfjarðarvatn á
Snæfellsnesi. Einn fundarstaður er
nærri sjó, Nýlenduvatn á Mýrum,
og tveir staðir eru við sjávarlón,
Bakkatjörn í Eyjafirði og Nýpslón
í Vopnafirði. Þá hafa vatnamýs
fundist neðst í árósum eða á
ströndu í grennd við ármynni, við
Ölfusá á Suðurlandi, Skjálfandafljót
í Aðaldal og ennfremur við þrjár
ár í Þistilfirði, Ormarsá, Sandá og
Hafralónsá. Í tveimur tilvikum
fundust vatnamýs reknar á fjöru
langt frá ám, á Þórshöfn og við Ytra-
Lón á Langanesi.
Stærð vatnamúsa
Sumar vatnamýs eru því sem
næst kúlulaga og niðurstöður
breiddarmælinganna tveggja
því svipaðar. Önnur eintök eru
sporöskjulaga og misbreið. Í enn
öðrum tilvikum eru vatnamýs eins
og sívalningar. Mosavöndlarnir
voru mældir þurrir, hafa eflaust
Fundarstaður og fundarár
mældra eintaka
Locality and year of mea-
sured specimens
Staður nr.
Locality No.
Fjöldi
Nos
Spönn
Range
Lengd
Length
(mm) Spönn
Range
Lengri
breidd
Long br.
(mm):
Spönn
Range
Styttri
breidd
Short br.
(mm)
Meðaltal
Mean sd Meðaltal
Mean sd Meðaltal
Mean sd
Holtavörðuvatn 1969 1 2 48-59 53,5 x 48-53 50,5 x 47-48 47,5 x
Hádegisvatn 1969 2 9 29-59 45,9 7,7 23-54 37,7 10,3 14-37 23,1 6,4
Bakkatjörn 1982 3 1 47 x x 35 x x 23 x x
Stóra-Arfavatn 1988 4 76 31-94 58,9 8,3 29-60 47,8 6,8 20-58 43,7 9,9
Ormarsá ca. 2002–2011 5 26 35-192 84,5 20,8 32-92 69,7 14,1 32-86 59,9 8,5
Hraunsskeið 2005 6 14 24-50 38,2 4,2 24-43 31,6 4 24-43 28,3 2,6
Hraunsfjarðarvatn 2006 7 2 38-52 45 x 34-47 40,5 x 30-39 34,5 x
Þjórsárver 2007< 8 x x x x x x x x x x
Eyrarselsvatn 2007 9 3 51-63 55,3 6,7 33-46 40,3 6,7 23-31 26 4,4
Ónefnd tjörn á Öxi 2008 10 1 41 x x 41 x x 41 x x
Nýlenduvatn 2009 11 1 24 x x 22 x x 14 x x
Þórshöfn 2012 (SV) 12 84 21-91 42 12,5 19-55 33,2 8,4 17-43 26,4 7,9
Þórshöfn 2012 (SÞ) 12 144 20-73 37,1 14-57 29,3 12-41 24,6
Hafralónsá 2012 13 81 21-195 68 22,9 20-125 49,8 9,7 x-x 37,3 7,9
Nýpslón 2013 14 3 33-38 29-34 25-31
Ytra-Áland 2014 15 10 x x x
Sandur 2014 16 1 45 x 40 x 35
Ytra-Lón 2015 17 1 71 x 71 x 67
1. tafla. Stærð vatnamúsa, lengd, styttri breidd og lengri breidd (mm). – The size of false lake balls from Iceland. The measurements are
length, shorter breadth and longer breadth (measured in mm).
Náttúrufræðingurinn
36
lagst saman við geymslu og hliðar
því misbreiðar. Slík afmyndun hafði
einnig átt sér stað áður en eintökum
var safnað enda stundum legið lengi
á jörðu. Að öllu jöfnu er því meira
mark takandi á lengdarmælingum.
Stærðarmælingar er að finna í
1. töflu. Eintökin voru misstór, það
lengsta 195 mm (úr Hafralónsá) en
það stysta 20 mm (frá Þórshöfn).
Mesta breidd eintaks var 125 mm
(Hafralónsá).
Stærð vatnamúsanna fer væntan-
lega talsvert eftir því hve stór
stykki detta í vatn eða hversu
stórar flyksur losna úr árbotni.
Að jafnaði voru vatnamýsnar úr
Ormarsá langstærstar þótt eintak
úr Hafralónsá hafi verið lengst
safnaðra eintaka. Ein af stærri
vatnamúsum úr Ormarsá var notuð
til að mynda búk í skemmtilegan
jólasvein (9. mynd).
Tegundir mosa
Í 2. töflu eru teknar saman upp-
lýsingar um þær tegundir mosa
sem greindar voru úr sýnum af
vatnamúsum frá 12 fundarstöðum
(stöðum 4–6 og 9–17).
Samtals fundust 34 mosategundir
í sýnunum, allt frá einni tegund
(Nýlenduvatni) til 15 (Nýpslóni) á
hverjum fundarstað. Frá sex stöðum
fundust 10–12 tegundir í hverju
sýni. Ef sýnið úr Nýlenduvatni
er undanskilið var fjöldi tegunda
úr vatnamúsum svipaður hvort
sem þær fundust í vötnum eða ám.
Nokkru fleiri tegundir var að finna
í sýnum við árósa.
Áður var búið að greina
fjórar tegundir til viðbótar úr
vatnamúsunum þremur sem
fjallað er um í fyrri grein1 og frá
einum fundarstað vatnamúsa til
viðbótar (Hraunsfjarðarvatni). Þetta
eru Kiaeria falcata, Sarmetypum
exannulatum (áður Drepanocladus
exannulatus), Scorpidium revolvens
(áður Drepanocladus revolvens) og
Meesia uliginosa. Því hafa alls fundist
38 mosategundir í íslenskum
vatnamúsum. Rétt er að geta þess
að tegundin Calliergon sarmentosum
sem nefnd er í fyrri grein1 ber
nú fræðiheitið Sarmentypnum
sarmentosum, sbr. 2. töflu. Þá má
einnig benda á að samkvæmt
sameindarannsóknum inniheldur
tegundin Hygroamblystegium
(Amblystegium) varium (sjá 2. töflu)
núna A. fluviatile og A. tenax sem
hafa fundist hérlendis en voru áður
skilgreindar sem tvær tegundir.
9. mynd. Jólasveinn sem Guðjón heitinn
Bjarnason bjó til úr vatnamús sem fannst við
Ormarsá í Þistilfirði. Búkurinn er úr einum
stærsta mosavöndli sem fundist hefur hér á
landi. Vöndlarnir voru sprautaðir með
hárlakki til að halda þeim betur saman.
Eigandi jólasveinsins er Gunnur Jónasdóttir,
ekkja Guðjóns. – A yule lad made of false
lakeballs from river Ormarsá in Þistilfjörður.
The body was made from one of the largest
balls found in Iceland. The balls were
varnished to keep the moss better together.
Ljósm./Photo: Ævar Petersen, 9.1. 2014.
2. tafla. Mosategundir sem fundust í sýnum vatnamúsa frá tólf stöðum á Íslandi. Gerð er grein fyrir fundarstöðum að framan, sjá einnig
1. töflu. Tölurnar höfða til fjölda stöngla og greina sem unnt var að tegundargreina nema þar sem annað er tilgreint. Ef fjöldi greindra
sprota var yfir 10 er fjöldinn tilgreindur með >10. – Species of Bryophyta identified in samples from false moss balls found at 12 localities
in Iceland. The finding locations are numbered in the list earlier in the paper, see also Tab. 1. Numbers indicate numbers of stem and branch
fragments possible to identify, except where noted. When more than 10 fragments were possible to identify, this is indicated by ‘>10’.
Tegund mosa / Species
Fundarstaðir / Localities
4 5 6 9 10 11 12 13 14 15 16 17
Aulacomnium palustre (Hedw.) Schwägr. --1---------
Brachythecium rivulare Schimp. 2-----------
Bryum pseudotriquetrum (Hedw.) P. Gaertn. o.. / et al., s.l. -------2----
Bryum sp. - - - - - - 2 - 1 1 1 -
Calliergon cordifolium (Hedw.) Kindb. -----------1
C. giganteum (Schimp.) Kindb. 1 - 2 9 - - - - - - - -
C. richardsonii (Mitt.) Kindb. - - - 7 >10 - - - - - - -
C. giganteum / richardsonii --->10--------
Calliergonella lindbergii (Mitt.) Hedenäs ---------1--
Campylium stellatum (Hedw.) Lange & C.E.O.Jensen --------1---
Framhald á næstu síðu. – Continued.
37
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
Tegund mosa / Species
Fundarstaðir / Localities
4 5 6 9 10 11 12 13 14 15 16 17
Climacium dendroides (Hedw.) F. Weber & D. Mohr 6 - - - - - - - - 1 2 -
Dicranoweisia crispula (Hedw.) Milde - - - - - - - - - - 2 -
Drepanocladus aduncus (Hedw.) Warnst. - - - - - 1 - - 2 - - -
D. polygamus (Schimp.) Hedenäs - - - 1 - - - - - - - -
D. turgescens (T.Jensen) Broth. - - - 1 - - - - - - - -
Fontinalis antipyretica Hedw. >10 9 - - - - 1 >10 - 3 - >10
Hygroamblystegium varium (Hedw.) Mönk., s.l. - - - - - - - - 1 - 1 -
Hygrohypnum duriusculum (De Not.) D.W.Jamieson - - - - - - 1 - 2 1 4 -
H. ochraceum (Wilson) Loeske 4 >10 >10 - - - >10 >10 >10 >10 >10 >10
Philonotis fontana (Hedw.) Brid. - 1 - - - - - 1A- >10 7 -
Philonotis cf. fontana 5 - >10 - - - - - >10 - - 1
Philonotis sp. - 1 - - - - - - - - 1 -
Pleurozium schreberi (Brid.) Mitt. - - 1 - - - - - - - - -
Pohlia wahlenbergii (F.Weber & D.Mohr) A.L.Andrews - - 2 - - - 3 - 5 >10 7 -
Pohlia sp. - - - 1 - - - - - - - -
Polytrichum juniperinum Hedw. / piliferum Hedw. - - - - - - - - 1 - - -
Polytrichum sp. 1 - - - - - - - - - - -
Polytrichum / Pogonatum sp. - - 1 - - - - - - - - -
Pterigynandrum liforme Hedw. - - 1 - - - - - - - - -
Racomitrium canescens (Hedw.) Brid., s.l. 1 - - - - - - - - - - -
Racomitrium ericoides (Brid.) Brid. / elongatum Frisvoll - - 3 - - - - - - - - -
Racomitrium fasciculare (Hedw.) Brid. - - >10 - - - - - - 2 - -
Racomitrium sp. 5 1 - - - - - - 2 1 1 -
Rhizomnium sp. - - - - - - 1 - - - - -
Rhynchostegium riparioides (Hedw.) Cardot - >10 - - - - 2 >10 2 - 1B>10
Sanionia orthothecioides (Lindb.) Loeske - - - - - - 1 - - - - -
Sanionia uncinata (Hedw.) Loeske 4 1 5 - - - 1 - 7 1 1 -
Sarmentypnum sarmentosum (Wahlenb.) Tuom. & T.J.Kop. - - - - 5 - - - - - - -
Sarmentypnum tundrae (Arnell) Hedenäs - - - >10 - - 1 - 1 - - -
Sarmentypnum sp. (líklega/probably S. tundrae)- - - >10 - - - - - - - -
Schistidium rivulare (Brid.) Podp. - - - - - - - - 3 - - -
Schistidium sp. 1 - - - - - - - - - - -
Scorpidium cossonii (Schimp.) Hedenäs - - - >10 2 - - - - - - -
Scorpidium scorpioides (Hedw.) Limpr. - - - 2 - - - - - - - -
Sphagnum sp. ------1C- - - - -
Straminergon stramineum (Brid.) Hedenäs 2 - - - - - - - 1 - - -
Fjöldi greindra tegunda/ættkvísla/
Number of identied species / genera 12 7 11 10 3 1 11 5 15 11 12 5
Acrocarpous sp. - - >10 - - - 3 - 1 1 2 -
Amblystegiaceae / Calliergonaceae sp. - - >10 - >10 - - - 1 - - -
Pleurocarpous sp. >10 2 - - - - - - - - 3 -
A S prot i m eð 7 –8 gróh irsl um. / Tu ft wi th 7– 8 sho ots . B Hluti mjög eyddur. / Fragment very worn. C Hluti greinar með blöðum. / Portion of branch leaf.
2. tafla. Framh. / Cont.
Náttúrufræðingurinn
38
Umræða
Fundarstaðir
Va tn am ý s h af a f un d is t s tr já l t u m
mestallt land en ekki á neinu einu
ákveðnu landsvæði (1. mynd).
Fundarstaðir eru allt frá innsta
hálendi landsins (Þjórsárverum)
til sjávar. Hæst yfir sjó hafa
vatnamýs fundist í um 630 m hæð
(við Eyrarselsvatn). Þessi dreifing
bendir til þess að búast megi við að
vatnamýs eigi eftir að finnast á mun
fleiri stöðum.
Bæði að fjölda fundarstaða og
eintaka sker Norðausturland sig
úr, einkum Þistilfjörður. Hvort
það er tilviljun skal ósagt látið.
Benda má á að margar ár renna
til sjávar í Þistilfjörð en þær hafa
þó ekki allar verið kannaðar m.t.t.
vatnamúsa. Þar voru einnig flest
eintök á einstökum fundarstað
þótt fjölmargir mosavöndlar hafi
einnig fundist við Eyrarselsvatn á
Fljótsdalsheiði og Stóra-Arfavatn á
Arnarvatnsheiði.
Hvernig myndast vatnamýs?
Vatnamý s myndast í vötnum og
ám við það að mosaflyksur falla
niður í vatn eða losna frá árbotni
og vöðlast upp. Vatnamýsnar úr
Hafralónsá voru á mismunandi
myndunarstigum, sumar sporöskju-
laga frekar en kúlulaga og með
mosataum út frá sér. Við Þórshöfn
og Hraunsskeið, og að hluta til við
Ormarsá, hafa vatnamýsnar borist
til sjávar með ám enda vex mosi
ekki í sjó og hlýtur því að vera
ættaður af landi eða úr ferskvatni.
Vatnamýsnar úr Hraunsfjarðar-
vatni voru ólíkar öðrum vatna-
músum að því leyti að þær voru
miklum mun stærri um sig þegar
þær voru lifandi enda gegnsósa
af vatni (sjá 2. mynd). Við þurrk
skruppu þær talsvert saman eins
og við mátti búast. Helst hafa
vatnamýsnar frá Ormarsá haldið
sér við þurrkun en þær eru frekar
þungar enda mosinn í þeim sérdeilis
þéttvöðlaður. Önnur eintök en úr
Hraunsfjarðarvatni voru meira eða
minna þurr og létt, mosinn dauður
en mörg þeirra höfðu legið um tíma
á landi. Í nokkrum eintökum voru
sprotar með grænum blöðum þótt
þau virtust deyjandi.
Eflaust myndast vatnamýs einnig
úr mosategundum sem vaxa á kafi
í ám en slitna upp. Ýmsar slíkar
tegundir er að finna hér á landi og
er sú stærsta svonefndur ármosi
Fontinalis antipyretica.5,13 Hann
finnst m.a. í Hölkná í námunda við
fundarstaði vatnamúsa í Þistilfirði. Í
tveimur sýnum þaðan fannst ármosi,
svo og á fjórum öðrum stöðum.
Meðal annarra mosa sem vaxa í
ám og fundust í vatnamúsunum
eru tegundir af ættkvíslunum
Hygrohypnum, Calliergon og
Drepanocladus.
Á einum stað (í Sandvík við
Ytra-Áland í Þistilfirði) fundust
stórar gróðurtorfur í sömu fjöru og
vatnamýsnar (7. og 8. mynd). Að
sögn Skúla Ragnarssonar, sem átt
hefur heima alla ævi á Ytra-Álandi
(f. 1945), hafa mosavöndlar ætíð
sést á sandinum í Sandvík. Ekki er
ólíklegt að vatnamýs myndist a.m.k.
öðru hverju þar sem aðstæður
eru þannig, þ.á m. vatnafar. Er
nokkuð öruggt að vatnamýsnar í
Sandvík hafa borist úr Sandá en
ós hennar er um 250 m vestan
við fundarstað. Í vatnavöxtum,
segir Skúli, brýtur áin úr bökkum
og hólmum sem eru margir upp
eftir ánni. Svo vill til að skömmu
áður en vatnamýsnar fundust árið
2013 voru mestu vorleysingar í
Sandá frá því mælingar hófust fyrir
áratugum.14,15 Eflaust hafa stóru
jarðvegsstykkin (sjá 7. mynd) losnað
í þeim hamförum enda bólgnaði
áin sem aldrei fyrr og fylltist af
íshröngli og snjóstykkjum. Af þeim
sökum hafa kannski myndast fleiri
vatnamýs en vanalega.
Va tn am ý s æt tu a ð g et a m yn d as t
víða í vötnum þegar mosasneplar
detta í vatn og veltast upp við bakka
fyrir áhrif ölduhreyfinga. Sértækari
skilyrði virðist þurfa til að vatnamýs
myndist í straumvatni þótt ekki
sé vitað nákvæmlega hvernig það
gerist og hve langan tíma það tekur.
Í ám myndast þær að því er virðist
þar sem eru hringiður. Í öllum ánum
fjórum þar sem vatnamýs hafa
fundist – Ölfusá, Skjálfandafljóti,
Ormarsá og Hafralónsá – eru
lygnar breiður stuttu áður en þær
renna um þröngan ós til sjávar
en hringiður myndast talsvert á
slíkum breiðum. Árbotninn er
auk þess sand- eða leirkenndur og
mosaflyksur rúllast upp við slíkar
aðstæður með botninum. Á einum
stað (í Ormarsá) sáust tveir stórir
mosaflekkir, greinilega sams konar
mosi og er í vatnamúsunum.
Myndun vatnamúsanna í
Hraunsfjarðarvatni hefur e.t.v.
tengst því að hækkað hafði
í vatninu og við það rofnað úr
bökkum. Þegar komið var á staðinn
27. júní 2006 var fundarstaðurinn
kominn á kaf en botninn var
sléttur þar sem vatnsbakkinn fór
undir vatn. Vatnsborðið hefur e.t.v.
verið hæfilega hátt um tíma til að
vatnamýs mynduðust. Engin eintök
var að sjá né heldur síðar en farið var
allnokkrum sinnum að vatninu eftir
þetta. Bakkar Hraunsfjarðarvatns
hafa rofnað mikið eftir að farið
var að nota það til vatnsmiðlunar.
Árlegar vatnsborðssveiflur nema
mörgum metrum og berir, gróður-
lausir bakkar blasa við þegar lágt er
í vatninu. Við suðurbakkann hafa
étist tugir metra af grónu landi
undir Horni og hrynur stöðugt úr
bökkunum.
Vatnamýsnar frá Þórshöfn
Fundur vatnamúsa í höfninni á
Þórshöfn er einstakur, bæði vegna
þess að þær fundust í sjávarfjöru
langt frá ám og vegna þess hve
mörg eintökin voru. Erfitt er að geta
sér til um fjölda en sjálfsagt hafa
verið þarna 2–3 þúsund eintök. Um
þetta leyti hafa verið óvenjulegir
straumar og öldufar þannig að
vatnamýsnar hafa náð að fljóta inn
um hafnarmynnið.
Á liðnum árum hafa vöndlar
af því tagi sem hér er fjallað um
fundist öðru hverju á fjörum í
Lónafirði (Guðjón Gamalíelsson,
munnl. uppl.). Áður en könnun
hófst var talið sennilegast að
39
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
vatnamýsnar á Þórshöfn væru
upprunnar úr Hafralónsá sem
er í rúmlega 5 km fjarlægð.
Vatnamýsnar við Hafralónsá voru
svipaðar þeim sem fundust við
Þórshöfn í mars sama ár. Í útliti voru
þær alls ólíkar mosavöndlunum
úr Ormarsá sem voru að jafnaði
stærri, dekkri og grófgerðari, og
innihéldu aðrar mosategundir.
Fjarlægðin þaðan eru tæpir 40
km. Vatnamýsnar frá Þórshöfn
og Hafralónsá voru einkarlega
ljósbrúnar. Í Þórshafnarmúsunum
fundust 11 mosategundir en aðeins
5 úr sýnum úr Hafralónsá (sjá 2.
töflu). Þrjár af fimm tegundum
voru þær sömu í sýnunum frá
þessum tveimur stöðum. Sandá
í um 10 km fjarlægð er einnig
hugsanlegur upprunastaður. Þar
fundust 11 mosategundir eins og
á Þórshöfn en aðeins 5 þeirra þær
sömu. Niðurstöður sanna ekki
uppruna vatnamúsanna á Þórshöfn
svo óyggjandi sé en útlit eintaka var
mjög svipað og sumar mosategundir
þær sömu og í Hafralónsá og Sandá.
Hölkná er í um 7,5 km fjarlægð frá
Þórshöfn og kemur einnig til greina
en hefur ekki verið könnuð m.t.t.
vatnamúsa.
Í tvígang var vatnamúsum safnað
úr röstinni við Þórshöfn (í mars og
apríl 2012). Eintökin voru svipuð að
stærð úr báðum söfnunum en þó
að meðaltali ögn smærri í seinna
safninu.
Gerðir vatnamúsa og
mosategundir
Vatnamýsnar úr Hraunsfjarðarvatni
skera sig frá öllum öðrum
vatnamúsum. Við fund voru þær
úr lifandi mosa, þær einu sem
fundist hafa hérlendis. Allar aðrar
vatnamýs voru úr dauðum mosa.
Mosinn var af tegundinni Kiaeria
falcata sem lifir einkum þar sem
snjór liggur fram eftir vori og
jarðvegur er því sírakur.16 Gæti
það verið ástæða þess að mosinn
lifði í vatninu en einnig kann að
vera að hann hafi verið tiltölulega
nýkominn á kaf. Eintökin voru mun
þéttari í sér alveg í gegn og þyngri
en aðrar vatnamýs sem flestar voru
léttir vöndlar af mismunandi lögun
og miklum mun gisnari að innan.
Var helst að eintökin úr Ormarsá
væru álíka þétt.
Að tegundarsamsetningu voru
vatnamýs úr stöðuvötnum verulega
ólíkar þeim sem fundust í ám eða
á sjávarströndu við ármynni og á
ströndinni við Þórshöfn. Einnig
reyndist vera munur á samsetningu
tegunda í eintökum sem fundust í
ám annars vegar og hins vegar við
ármynni.
Sumar tegundir mosa sem
vanalega er að finna á landi, bæði
í þurr- eða votlendi, hafa eflaust
fallið í vatn fyrir tilviljun. Þetta
eru tegundir á borð við Climacium
dendroides, Pleurozium schreberi,
Pterigynandrum filiforme og Sanionia
uncinata. Því er ekki unnt að nota
þær til að skilgreina ákveðin fersk-
vatnssamfélög. Tegundin Fontinalis
antipyretica vex bæði í vötnum og
ám. Hún finnst bæði í súru og
basísku umhverfi og því er ekki
unnt að greina úr hvaða kjörlendi
vatnamýsnar eru upprunnar.
Tegundir sem eru dæmigerðar
fyrir rennandi vatn eru Hygro-
hypnum-tegundirnar tvær og
Rhynchostegium riparioides. Í
náttúrunni vaxa þær því sem
næst eingöngu í ám. Þær voru
algengar í vatnamúsum úr ám eða
árósum, t.a.m. frá Hraunsskeiði.
Aðrar tegundir sem greindust
aðallega úr vatnamúsum frá slíkum
stöðum voru Bryum-tegundir, Pohlia
wahlenbergii og sumar Racomitrium-
tegundir. Þær vaxa annars á ógrónu
landi, stundum í votlendi en einnig
oftlega þar sem jarðvegi hefur verið
raskað. Það kom á óvart að Philonotis
fannst einkum í vatnamúsum úr
árósum en þaðan voru greindar
nokkrar aðrar mosategundir í einu
eða fleiri sýnum. Í þessum sýnum
voru tegundir sem vaxa bæði í vatni
og á landi.
Dæmigerðir dýjamosar, svo sem
flestar tegundir af ættkvíslunum
Calliergon, Sarmentypnum og
Scorpidium, fundust einkum í
vatnamúsum úr vötnum. Þessir
mosar geta verið komnir úr dýjum
nærri vatnsbökkum, vatnsósa
bökkum eða þar sem vatnsbakkar
eiga til að fara á kaf í vorleysingum.
Nokkrar slíkar tegundir eru
algengar í norðlægum vötnum þ.á
m. í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi.17
Te gu nd i rn ar Calliergon giganteum, C.
richardsonii, Drepanocladus turgescens,
Sarmentypnum tundrae og Scorpidium
cossonii benda til basísks umhverfis,
einnig sú staðreynd að engar
Sphagnum-tegundir voru til staðar.18
Niðurlag
Vatnamýs eru greinilega frekar
sjaldgæf fyrirbæri í íslenskri náttúru
þar sem ekki eru um þær fleiri
heimildir en raun ber vitni. Freddy
Laustsen (1916–2006) veiddi t.d. í
mörgum vötnum á Arnarvatnsheiði
en kvaðst hvergi hafa séð vatnamýs
nema í Stóra-Arfavatni (munnl.
uppl.). Þó má búast við að þær
finnist víðar á landinu en hingað
til hefur verið skráð. Þannig eru
líkur á að vatnamýs hafi verið
í Hrafnabjargavatni í Hörðudal í
Dalasýslu á árum áður (Ólafur
Finnsson frá Ytri-Hrafnabjörgum í
Hörðudal, Dal. (1935-2014), munnl.
uppl.) en þann stað þarf að kanna.
Náttúruskoðarar hafa eflaust rekist
á þær án þess að gefa þeim frekari
gaum. Upplýsingar frá lesendum
um fleiri fundarstaði eru vel þegnar.
SUMMARY
False lake balls from Iceland
In 1988 a short article was published re-
porting for the first time false lake balls
in Iceland.1 The paper refers to speci-
mens collected at three localities, while
now (at the end of 2015) a further 14
sites have been discovered (Fig. 1).
Details for these sites are listed in nu-
merical and chronological order in the
Icelandic text, but the locality names and
their number are also shown in Tab. 1.
Lake balls from some of these localities
are shown in Figs 2–8, while a Christmas
decoration made of false lake balls is
shown in Fig. 9.
The finding localities are dispersed
around the country, from the coast to the
innermost highland regions. The locali-
Náttúrufræðingurinn
40
ty at the highest elevation is that of
Eyrarselsvatn (site no. 9), at about 630 m
a.s.l.
The size of false lake balls is given in
Ta b. 1 . T h e ba l ls m e as u re d fr om 20 t o
195 mm in length, while the broadest
specimen measured 125 mm. Lake balls
from Ormarsá (no. 5) were on average
the largest.
Ta b. 2 l i st s t he m o ss s pe c ie s i de n ti fi e d
from sites nos 4–6 and 9–17. From these
sites 34 moss species (and in some cases
only higher taxa) were identified. The
moss species from sites nos 1–3 and 7
had been identified earlier. Four addi-
tional moss species were found at those
sites, i.e. Kiaeria falcata, Sarmentypnum
exannulatum, Scorpidium revolvens, and
Meesia uliginosa. Therefore, a total of 38
moss species have been discovered in
false lake balls from Iceland. No speci-
mens were available from site no. 8.
The number of moss species or gen-
era identified per site varied from 1 at
the coastal lake Nýlenduvatn (no. 11) to
15 at the coastal lagoon Nýpslón (no. 14).
Half of the 12 sites in Tab. 2 had 10–15
species in the moss balls found.
Excepting Nýlenduvatn, the number of
identified taxa did not differ much be-
tween lakes and rivers, but was slightly
higher at coastal river mouths. The spe-
cies composition in lakes differed sig-
nificantly from that of rivers or coastal
river mouths. Differences were also
found between rivers and coastal river
mouths.
Almost all the lake balls examined
consisted of dead or in a few cases dying
moss (mixed with some other materials).
One exception were the specimens from
Hraunsfjarðarvatn (no. 7), which con-
sisted of living moss (Fig. 2) of the spe-
cies Kiaeria falcata, which was found no-
where else.
Some of the species that normally
grow in terrestrial habitats, dry or wet,
such as Climacium dendroides, Pleurozium
schreberi, Pterigynandrum filiforme, and
Sanionia uncinata, have most likely fallen
into the water accidentally, and there-
fore do not represent any specific limnic
environments. Further, Fontinalis antipy-
retica grows in both lentic and lotic envi-
ronments, and both base-poor and base-
rich habitats. This species therefore does
not distinguish false moss balls from a
specific environment. Species typical of
running water, such as the two
Hygrohypnum species and Rhyncho-
stegium riparioides, were found exclu-
sively (or almost exclusively) and in
large amounts, in lake balls from rivers
or coastal river mouths. Other species
that were found mostly in the balls from
such environments, included Bryum
species, Pohlia wahlenbergii, and some
Racomitrium species. Interestingly,
Philonotis was especially abundant in
lake balls from coastal river mouths.
The larger number of species around
coastal river mouths would be explained
by somewhat more diverse habitats
here compared to more homogeneous
environments further upstream. Typical
fen species, such as most members of
Calli ergon, Sarmentypnum, and Scorp-
idium, were mainly found in moss balls
from lakes. The occurrence of Calliergon
giganteum, C. richardsonii, Drepanocladus
turgescens, Sarmentypnum tundrae, and
Scorpidium cossonii, as well as the com-
plete absence of Sphagnum in balls from
lakes suggest that those lakes or the sur-
rounding fens are alkaline.18
False lake balls seem to be rather rare
in Iceland since they have not been re-
corded more often than indicated here.
One reason is that naturalists may not
have taken much notice of them.
However, the wide but sparse distribu-
tion implies that additional sites remain
to be discovered, especially lakes.
Formation of false lake balls in rivers
appears to require more specific situa-
tions. These are where the rivers widen
into rather calm slow-streaming broads
with eddies before flowing through a
narrow channel to sea.
Þakkir
Ýmsum ber að þakka fyrir aðstoð við þessa ritgerð. Öllum finnendum
vatnamúsa er þakkað þeirra framlag, svo og Tom Barry sem gerði kortið.
Freddy Laustsen, Guðjón Gamalíelsson og Ólafur Finnsson fá þakkir fyrir
nánari ábendingar um vatnamýs. Skúla Ragnarssyni á Ytra-Álandi í
Þistilfirði eru þökkuð greið svör um vatnamýs og vatnafar í Sandá. Bergþór
Jóhannsson (sem lést árið 2006) greindi mosana í sýnum frá þremur fyrstu
stöðunum þar sem vatnamýs uppgötvuðust og einum til viðbótar.
Heimildir
1. Ævar Petersen 1988. Vatnamýs. Náttúrufræðingurinn 58(1). 31–35.
2. Luther, H. 1979. Aquatic moss balls in southern Finland. Annales
Botanici Fennici 16. 163–172.
3. Árni Einarsson 1985. Botn Mývatns. Fortíð, nútíð, framtíð. Náttúru-
fræðingurinn 55(4). 153–173.
4. Árni Einarsson 2014. The lake balls of Mývatn in memoriam. /
Kúluskíturinn í Mývatni. Minningarorð. Náttúrurannsóknastöðin við
Mývatn, Skútustaðaheppi. 64 bls.
5. Helgi Hallgrímsson 1979. Kaflinn „Blaðmosar (Musci)“ bls. 98–99 í
Ve rö l d i n í v a t ni n u . H an d b ó k u m v a tn a l í f á Í s l a nd i . A s k u r, R ey k j a v í k . 2 1 7
bls.
6. Helgi Hallgrímsson 2002. Vatnaskúfur, vatnadúnn og vatnabolti.
Náttúrufræðingurinn 70(4). 179–184.
7. Huntsman, A.G. 1935. On the formation of lake balls. Science 82(2122).
191–192.
8. Tir én, T. 1 983 . O m s jöb olla r. F aun a o ch Flo ra, Upp sal a 7 8. 73– 74.
9. Schloesser, D.W., Hiltunen, J.K. & Owens, R.W. 1983. Rediscovery of lake
balls in Lake Michigan. Journal of Freshwater Ecology 2(2). 159–163.
10. Quigley, D.T.G. & Flannery, K. 2014. An exceptionally large ‘Seaball’
discovered on Inch Strand, Co. Kerry. The Irish Naturalists’ Journal 33(2).
129–130.
11. Guðmundur P. Ólafsson 2007. Þjórsárver. Hernaðurinn gegn landinu.
Mál og menning, Reykjavík. 288 bls.
12. Benóný Jónsson & Karólína Einarsdóttir 2008. Áhrif vegagerðar um Öxi
og Berufjarðarbotn á vatnalíf. Veiðimálastofnun. VMST/08029. 35 bls.
13. Bergþór Jóhannsson 1996. Íslenskir mosar. Fossmosaætt, ármosaætt,
flosmosaætt, leskjumosaætt, voðmosaætt og rjúpumosaætt. Fjölrit
Náttúrufræðistofnunar 30. 55 bls.
14. Veðurstofa Íslands 2013. Myndskeið af Sandá í Þistilfirði í júní 2013.
Skoðað 1. maí 2014 á https://www.facebook.com/akureyrivikublad/
posts/464849536932732
15. Veðurstofa Íslands 2013. Ársskýrsla 2013. Veðurstofa Íslands, Reykjavík.
23 bls.
16. Bergþór Jóhannsson 1991. Íslenskir mosar. Brúskmosasætt. Fjölrit
Náttúru fræðistofnunar 19. 119 bls.
17. Hedenäs, L. 1997. Sjömossor i Sverige. Svensk Botanisk Tidskrift 90.
277–296.
18. Hedenäs, L. 2003. The European species of the Calliergon-Scorpidium-
Drepanocladus complex, including some related or similar species. Mey-
lania 28. 1–116.
41
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
Um höfunda
Ævar Petersen (f. 1948) lauk B.Sc. Honours-prófi í
dýrafræði frá Aberdeenháskóla í Skotlandi 1973 og
doktorsprófi í fuglafræði frá Oxfordháskóla á Englandi
1981. Ævar er nú á eftirlaunum.
Lars Hedenäs (f. 1957) varði Ph.D.-ritgerð sína í
kerfisfræði planta (e. systematic botany) við Stokk-
hólmsháskóla 1994 og varð síðan dósent við skólann.
Lars er núna safnvörður við Náttúrugripasafnið (Natur-
historiska riksmuseet) í Stokkhólmi.
Kristín Jónsdóttir (f. 1956) lauk búfræðiprófi frá
Bændaskólanum á Hvanneyri 1976, BS-prófi í almennri
náttúrufræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands á
Hvanneyri árið 2010 og kennsluréttindanámi frá
Háskólanum á Akureyri árið 2011. Kristín vinnur nú að
MS-verkefni við LbhÍ um fjörur en starfar einnig sem
náttúrufræðikennari við Vopnafjarðarskóla og stundar
sauðfjárbúskap í Hvammi í Þistilfirði.
Róbert A. Stefánsson (f. 1972) lauk BS-prófi í líffræði frá
Háskóla Íslands árið 1996 og MS-prófi frá sama skóla
árið 2000. Hann hefur starfað sem forstöðumaður
Náttúrustofu Vesturlands frá því í desember 2000.
Skarphéðinn G. Þórisson (f. 1954). Líffræðingur frá
Háskóla Íslands (1978), hefur starfað við vöktun og
rannsóknir á hreindýrum við Náttúrustofu Austurlands
frá 2000.
Póst- og netföng höfunda/Authors’ addresses
Ævar Petersen
Brautarlandi 2
108 Reykjavík
aevar@nett.is
Lars Hedenäs
Enheten för botanik
Naturhistoriska riksmuseet
Box 50007
SE-104 05 Stockholm
Svíþjóð
lars.hedenas@nrm.se
Kristín Jónsdóttir
Hvammi 2
681 Þórshöfn
krjons@simnet.is
Róbert A. Stefánsson
Náttúrustofu Vesturlands
IS-340 Stykkishólmi
robert@nsv.is
Skarphéðinn G. Þórisson
Náttúrustofu Austurlands
IS-700 Egilsstöðum
skarphedinn@na.is